Páll Ásgeir Ásgeirsson
 
 

 

 
101_island.jpgNýjasta afkvæmið
 
Þessi bók kom út hjá Máli og menningu vorið 2008. Í henni er sagt til vegar að 101 áfangastað á Íslandi og í káputexta segir:
"Ýmist er lesandinn leiddur á staði sem fram að þessu hafa verið á fárra vitorði eða sýndar eru nýjar hliðar á vinsælum áfangastöðum. Bókin á eftir að opna lesandanum nýja sýn á náttúru landsins og furður hennar og bregður ekki síður ljósi á þjóðarsöguna og sérkenni þjóðarsálarinnar. "
 
Hugmyndin að þessari bók varð til veturinn 2007 og upphaflega átti aðeins að fjalla um áfangastaði við hringveginn en hugmyndin mótaðist og stækkaði á nokkrum fundum með Sigurði Svavarssyni sem þá var útgáfustjóri Eddu.
Við Rósa Sigrún Jónsdóttir eiginkona mín og sálufélagi fórum síðan sumarið 2007 í gríðarlegan rannsóknarleiðangur þar sem gervallt Ísland var undir. Við lágum úti í rúmlega sex vikur og það voru sannkallaðar þrælabúðir. Á góðum degi voru 4-5 staðir heimsóttir, myndaðir og skráðir og sjaldan var vinnu lokið fyrr en síðla kvölds í tjaldinu og í þessum leiðangri þótti góður siður að vakna um sjöleytið á morgnana. Samtals ókum við 6500 kílómetra á Landrover þetta sumar og það reynir meira á ferðalang en orðin tóm fela í sér.
Við vorum með í farteski okkar skrá yfir staði sem við töldum fýsilega en staðir voru sífellt að detta út af henni og nýir að koma inn í staðinn. Sumir staðir reyndust oflofaðir en nokkrum sinnum fundum við eftir ábendingum heimamanna afar forvitnilega staði. Við komum heim aftur með rúmlega 140 staði í formi mynda og texta en 128 kaflar urðu til og í samvinnu við Bjarna Guðmarsson, ritstjóra hjá Forlaginu var þeim fækkað í 101. Þetta var eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur og finnst í augnablikinu vænst um þessa bók af þeim sem ég hef skrifað.
 
 
 
 
img.jpg
Fyrirheitna landið
 
Hornstrandir- gengið um eyðibyggðir frá Snæfjallaströnd til Ingólfsfjarðar á sér nokkuð langa sögu. Upphaflega útgáfan kom út hjá Máli og menningu vorið 1999. Sumrinu 1998 eyddum við skötuhjúin því norður á Hornströndum við rannsóknir og í endurminningunni glóir þetta magnaða sumar eins og miðnætursól við hafsbrún. Þetta varð 25 daga útilega í litla North Face tjaldinu í því litríka rófi veðurs og vinda sem þetta harðneskjulega en heillandi hérað hefur ávallt til reiðu. Við gengum hálfnakin og villt í logni og sól og böðuðum okkur í ám og lækjum en við lágum líka samfellt í tvo sólarhringa í Hornvík og biðum af okkur norðan ofsarok með mokandi rigningu. Og allt þar á milli.
Í þessu ferðalagi bundumst við Hornströndum þeim böndum sem aldrei munu rofna og þau hafa dregið okkur þangað aftur og aftur.
Upphaflega útgáfa bókarinnar var í litlu broti en vorið 2006 var ákveðið að gera stækkaða endurútgáfu og það sumar lögðumst við aftur út og eyddum dásamlegum vikum á Hornströndum, heimsóttum nokkra uppáhaldsstaðina okkar aftur og lentum aftur í svo gersamlega vitlausu veðri í Hrafnfirði að við höfum ekki í annan tíma séð annað eins.
Bókin kom svo út í endurútgáfu vorið 2007 hjá Máli og menningu og nú með viðbótum um Austurstrandir og Grunnavík ásamt nýju korti sem jók gagnsemi hennar nokkuð. Fyrsta prentun seldist upp þá um sumarið og haustið og var prentuð á ný vorið 2008 og virðist ekkert lát á vinsældum Hornstranda.
 
 
 
  bill_og_bakpoki.jpg
Með allt á bakinu 
 
Hugmyndin að Bíl og bakpoka kviknaði vorið 1997 ef ég man rétt en bókin kom út hjá Máli og menningu vorið 2006. Í henni eru tíu leiðarlýsingar fyrir bakpokaferðalanga sem kjósa að ferðast á eigin vegum. Ferðirnar eru allar settar upp með þeim hætti að gengið er í 1-2 daga en síðan komið aftur að upphafsstað. Leiðarlýsingunum var safnað saman á löngum tíma en 
aðallega var verkið þó unnið sumarið 2005. Í fórum okkar eru ennþá óbirtar leiðarlýsingar af þessu tagi en úr um það bil 20 lýsingum völdum við þær tíu sem við töldum áhugaverðastar og eru leiðirnar um allt land, sumar þekktar aðrar algerlega nýjar.
Ekki er hægt að segja að bókin hafi selst í bílförmum enda ekki ýkja stór markaður sem stundar erfiðar bakpokaferðir um fáfarnar slóðir. En hún hefur samt farið nokkuð víða og ég hef átt orðastað við marga ánægða ferðalanga sem hafa nýtt sér bókina við skipulag gönguferða.
Í þessari bók er að finna lýsingar á nokkrum stöðum sem ég held enn að séu meðal óuppgötvaðra leyndarmála ef ekki beinlínis fjársjóða í íslenskri náttúru. Nægir að nefna fossana í Djúpárdal í Fljótshverfi sem eru í sérstöku uppáhaldi okkar og hið magnaða töfraland sunnan Sveinstind þar sem Skaftá rennur undir Kömbum og Stakfelli en það er einn af fegurstu stöðum Íslands. Meðal óbirtra leiðarlýsinga sem bíða endurútgáfu bókarinnar mætti nefna Bræðrafell og Kollóttudyngju, dularfullar slóðir um Hraundal og Hitulaugar austan Skjálfandafljóts.
 
 

  halendisbokin.jpg
 Bókin sem beðið var eftir
 
Hálendishandbókin kom út vorið 2001. Hún varð til með þeim hætti að Þórarinn Friðjónsson framkvæmdastjóri Skerplu eignaðist jeppa um aldamótin og áttaði sig fljótlega á því að leiðsögubók fyrir ökumenn um hálendi Íslands vantaði sárlega. Við unnum saman á þessum tíma og Þórarinn kom til mín með hugmyndina. Sjaldan höfum við skötuhjúin ekið og gengið eins mikið um fjöll og firnindi eins og sumarið 2000 þegar bókin var í smíðum. Bókin hefur nefnilega það markmið leynt og ljóst að reka fólk út úr bílunum og á vit náttúrunnar milliliðalaust.
Fyrsta útgáfan kom út hjá Skerplu og var feiknalega vel tekið. Ef ég man rétt voru prentuð um 10 þúsund eintök það ár handa ferðaglöðum jeppamönnum. Það kom í ljós sem okkur hafði grunað að þessa bók vantaði sárlega á markaðinn því handhægur fróðleikur um Ísland og hálendi þess var dreifður um margar bækur og þarna hafði tekist að draga hið nauðsynlegasta af honum saman í eina bók.
Árið  2004 eignaðist útgáfufyrirtækið Heimur útgáfuréttinn að Hálendisbókinni og þá um vorið var gefin út ný og endurbætt útgáfa. Í henni var bætt við leiðum og áfangastöðum og auk þess fylgdi bókinni geisladiskur með rúmlega 80 myndskeiðum af vöðum á hálendinu. 
Heimur gaf einnig út ári síðar stytta útgáfu Hálendishandbókarinnar í enskri þýðingu undir heitinu: Adventure in Iceland.
Mér finnst alltaf sérstaklega vænt um Hálendishandbókina og hlýnar um hjartaræturnar þegar ég sé slitin og snjáð eintök í vösum innan á bílhurðum ferðalanga fjarri mannabyggð. Það vekur upp minningar um sumar mikilla ævintýra en þrotlausrar vinnu við endalausan akstur.
 
 
 
 
 
utivistarbok.jpg Sjálflýsandi bókin
 
Þessi litla bók kom út hjá því sem þá hét JPV forlag vorið 2005. Þetta var fyrsta bókin sem ég vann með þeim útgefanda og líkaði samstarfið við hina áköfu markaðsmenn Jóhann Pál og Egil son hans alveg sérstaklega vel.
Bókin skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn fjallar almennt um útbúnað til útivistar á borð við nesti, fatnað og þessháttar. Þar er einnig lagt á ráðin um val á tjaldstæðum, hegðun í villiböðum, vísað á lesefni til að kynnast gróðri, fuglum og skordýrum og reynt að skilja tilganginn með útivist og ferðalögum.
Seinni hluti bókarinnar er safn leiðarlýsinga um nágrenni Reykjavíkur og var það með ráðum gert til þess að höfða til þess stóra markaðar sem er búsettur við Faxaflóann. Þannig var bókin öðrum þræði hálfgert trúboðsrit sem hafði það að markmiði að fá þá sem ekki höfðu fengist mikið við útivist til að ánetjast málstaðnum og gefa þeim sem þegar höfðu byrjað fleiri hugmyndir að gönguferðum.
Jón Ásgeir Hreinsson hönnuður gerði kápuna og útlit bókarinnar og valdi á hana þann skæra appelsínugula lit sem gaf henni gælunafnið: sjálflýsandi bókin. Smekkur Jóns og innsæi reyndist haldgott enda maðurinn fágætur snillingur og bókinni var vel tekið. Hún hefur verið prentuð oftar en einu sinni og virðist hafa ratað ofan í vasa allmargra útivistarmanna.
 
 

 
gonguleidir.jpg Fyrsta leiðsögubókin
 
Þessi litla bók kom út vorið 1994 og stendur alltaf talsvert nálægt hjarta mínu því þetta var fyrsta leiðsögubókin sem ég skrifaði. Mál og menning gaf hana út og ég man vel eftir því þegar ég gekk út af skrifstofu Halldórs Guðmundssonar þáverandi útgáfustjóra með samninginn um útgáfu bókarinnar í vasanum. Ég sá þennan áfanga ekki sem upphafið að verkefni sem ætti eftir að fylgja mér næstu áratugi heldur fyrst og fremst sem tækifæri til að ferðast heilt sumar og fá borgað fyrir það.
Sumarið 1993 gengum við Rósa Sigrún þær fjórar leiðir sem lýst er í kverinu en þær eru allar miðaðar við ferðalög með allt á bakinu og eru temmilega erfiðar. Þarna eru: Laugavegurinn að Fimmvörðuhálsi meðtöldum, Kjalvegur úr Hvítárnesi til Hveravalla, Öskjuvegurinn úr Herðubreiðarlindum í Svartárkot og leiðin úr Geldingafelli í Lónsöræfi og til byggða um Geithellnadal.
Leiðirnar eru á bilinu fimm til sjö dagar á göngu hver og við fórum þetta allt sama sumarið með fárra daga bili milli ferða. Sannast sagna voru það dauðlúnir ferðalangar sem komu til byggða í Svartárkoti um miðjan ágúst þetta dásamlega sumar. Búnaður okkar og fatnaður var talsvert frumstæðari en síðar átti eftir að verða og við gengum að jafnaði undir þyngri byrðum en við gerum í dag. Við vorum nær alltaf tvö saman á ferð en Eyjólfur Guðjónsson vinur okkar og lærimeistari í bakpokaferðum gekk með okkur tvær af leiðunum. Í endurminningunni var veðrið alltaf gott og ég þarf að grafa djúpt til að minna mig á að það er auðvitað ekki allskostar rétt. Við lentum tvisvar sinnum í snjókomu þetta sumar, bæði á Rauðkolli við Þjófadali og sunnan við Geldingafell á suðurleið. Bókin var prentuð annars vegar í einu lagi og hins vegar í fjórum aðskildum kverum sem hvert innihélt eina leiðarlýsingu. Stærri útgáfan seldist nokkuð og var prentuð að minnsta kosti tvisvar og ég sé hana stundum í hillum bókabúða eins og stálpað barn sem er sloppið úr augsýn foreldranna.
 

 
vier_wanderrouten.jpg
 Sú þýska
Þessi litla bók á sér undarlega sögu. Hún er eftir Sabine Barth sem vann hana að beiðni Máls og menningar. Sabine notar bókina Gönguleiðir sem fyrirmynd, lýsir þeim leiðum sem þar er að finna og á stórum köflum er hennar bók nánast orðrétt þýðing á mínum texta.
Af þessum ástæðum  er ég skráður sem meðhöfundur Barth þótt ég kæmi ekkert að gerð bókarinnar. Svolítill vandræðagangur varð í kringum þetta hjá forlaginu því ég vissi ekkert um gerð og vinnslu bókarinnar fyrr en hún var að fara í prentun. En allt leystist þetta í góðri sátt milli mín og forleggjara og ég veit ekki betur en þetta sé eina leiðsögubókin á þýsku sem innlendur höfundur setur nafnið sitt á . 
 
 
 
 
 
 
 
fotspor_a_fjollum.jpg
 
 Á tali við fjallafólk 
 
Fótspor á fjöllum er bók með viðtölum við sex orðlagða ferðalanga og fjallageitur. Þetta eru þau Valgarður Egilsson, Sigrún Valbergsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Höskuldur Jónsson, Guðmundur Hallvarðsson og Ingvar Teitsson. Þessi bók kom út haustið 2006 hjá bókaútgáfunni Útkall sem er líklega þekktust fyrir samnefndar bækur Óttars Sveinssonar.
Viðtölin eru öll tekin síðla vetrar 2006 eða þá um vorið og þetta var öldungis stórskemmtilegt verkefni. Hver viðmælandi hefði auðvitað verið efni í heila bók en það var sérlega fróðlegt og gefandi að fá að kynnast þessum reynsluboltum og hlýða á frásagnir þeirra. Nokkra viðmælendur þekkti ég lauslega áður en öðrum kynntist ég í fyrsta sinn í þessu verki.
Samtölin snerust ekki einungis um eftirminnileg ferðalög viðmælenda heldur æsku þeirra og uppvöxt, afstöðu þeirra til náttúruverndar og margt fleira. Ég minnist kaffidrykkju með súkkulaði  á heimili Gerðar Steinþórsdóttur, rökræðna um náttúruvernd á svölunum hjá Höskuldi Jónssyni  með allan fjallahring Reykjavíkur undir og langra samræðustunda í bókastofu Valgarðs Egilssonar þar sem við reyndum að kryfja til mergjar raunverulegan tilgang ferðalaga. Síðan hef ég gengið á fjöll með sumum viðmælendanna og veit að þau tengsl sem mynduðust í samtölum okkar eiga eftir að halda meðan báðir lifa.
 
 

 
fostbraedralag.jpg
 
Bókin um bræðurna eilífu
 
 Fóstbræðralag - saga karlakórsins Fóstbræðra í níutíu ár. Þetta er óneitanlega lýsandi titill enda snýst þessi þykka bók nákvæmlega um það sem felst í titilinum. Bókin kom út vorið 2001 eftir afar langa og sérstæða útgáfusögu. Karlakórinn Fóstbræður gaf bókina út sjálfur en ég hef verið félagi í þeim yndislega félagsskap frá haustinu 1993.
Það var veturinn 1995 sem ég hófst handa við ritun sögunnar og sinnti því í um það bil hálfu starfi um nærri eins árs skeið. Ég sat löngum stundum inni í Fóstbræðraheimili og las fundargerðarbækur, ljósritaði skjöl eða snuðraði á Landsbókasafni eftir blaðaskrifum sem tengdust sögu þessa stórmerka menningarfyrirbæris sem karlakórinn Fóstbræður er og verður. Þess á milli sat á ég skrafi við fyrrum stjórnendur, gamla kórfélaga eða hina stórkostlegu ritnefnd sem ég starfaði með. Þar sátu höfuðsnillingar eins og Þorsteinn Helgason. Einar Geir Þorsteinsson, Sigurður Jóelsson og Aðalsteinn Guðlaugsson. Ef allt það sem sagt var á þessum fundum hefði ratað í bókina hefði hún sjálfsagt verið bönnuð.
Upphaflega ætlaði víkingurinn Jóhann Þórir Jónsson í Skákprent að gefa bókina út en skyndilegt fráfall hans setti strik í reikning allra málsaðila en um síðir kom bókin út.  Í viðtali í Kastljósi RÚV þar sem við Jón Þorsteinn Gunnarsson þáverandi formaður Fóstbræðra sátum fyrir svörum varð mér á að segja að fyrsti bassi eða barítón væri náttúrulegt birtingarform karlmannsraddar. Annað væru frávik náttúrunnar eða slys í æsku. Við Jón syngjum báðir þessa rödd svo þessu varð ekki mótmælt. Þrátt fyrir þetta og allt það sem ekki stendur í bókinni er ég enn félagi í elsta og besta karlakór á Íslandi og verð sjálfsagt eitthvað áfram.
 
 

 
 
ekki_dain.jpg
  Er líf eftir dauðann?
 
Í bókinni sem ber hið sérstæða nafn: Ekki dáin, bara flutt, er rakin saga spíritisma eða sálarrannsókna á Íslandi. Sögusvið bókarinnar nær frá lokum nítjándu aldar fram til miðrar tuttugustu aldarinnar. Áhugamenn um líf eftir dauðann stofnuðu fyrst Tilraunafélagið og síðar Sálarrannsóknarfélag Íslands og er saga þessara hreyfinga rakin. Sagt er frá borðdansi, fljúgandi miðlum, reimleikum, straum- og skjálftalækningum, svikum, prettum og dásamlegum sönnunum. Meðal helstu persóna og leikenda eru Indriði Indriðason miðill, Guðrún frá Berjanesi, Margrét frá Öxnafelli, Friðrik huldulæknir, Sessilíus á Urðarstígnum og fjölmargir aðrir sem komu við þessa litríku og sérstæðu sögu.
Ég skrifaði þessa bók ásamt félaga mínum og vini til margra ára, Bjarna Guðmarssyni sagnfræðingi og að sönnu var þetta eiginlega hugmynd Bjarna. Þórarinn Friðjónsson, útgefandi sem þá rak fyrirtækið Skerplu gaf bókina út haustið 1996.
Við skiptum þannig með okkur verkum að Bjarni skrifaði um fyrrihluta tímabilsins, sögu Tilraunafélagsins en ég tók við keflinu um 1918 og rakti söguna þaðan til 1942 en við námum staðar við réttarhöldin yfir Láru Ágústsdóttur sem var dæmd við svikamiðlun. 
Þetta var afskaplega skemmtilegt grúsk og ég las meira í Morgni, riti SRFÍ heldur en er hollt fyrir nokkurn mann og átti orðastað við fjöldann allan af misjafnlega undarlegu fólki. Þegar bókin kom út fórum við hamförum í kynningarstörfum og komum meðal annars fram á aðventukvöldum Sálarrannsóknarfélaga og ámóta sérstæðum samkomum. Bókinni var satt að segja tekið fremur fálega og hún seldist ekki vel. Upplagið var ekki stórt og bókin er löngu ófáanleg en ég fæ reglulega fyrirspurnir um hana.
 
 

 
lara_midill.jpg Sagan af týnda handritinu
 
Bókin sem inniheldur ævisögu Láru Ágústsdóttur, umdeildasta miðils á Íslandi kom út hjá JPV  fyrir jólin 2005. Bakvið hana leynist sérstæð saga af merkilegri manneskju og týndu handriti. Þegar við Bjarni Guðmarsson skrifuðum bókina: Ekki dáin, bara flutt, áttum við nokkrum sinnum orðastað við Óskar Guðmundsson silfursmið sem þá var enn lifandi en Óskar var vitorðsmaður og unnusti Láru í hinum umdeildu svikamálum sem víða hefur verið fjallað um. Þá heyrðum við fyrst sagt frá ævisögu Láru sem aldrei hefði komið út og handritið hefði verið brennt.
Ári seinna sagði Kjartan Gunnar Kjartansson blaðamaður mér að hann hefði handleikið afrit af þessari ævisögu í ónefndu húsi í Reykjavík. Næstu ár á eftir hvarf sagan af þessu handriti aldrei alveg úr huga mér og að lokum staðfesti ég tilvist þess og leitaði eftir því að fá að lesa en eigandi handritsins vildi ekki leyfa það og málið virtist í blindgötu. Svo sá ég í einhverri bók heimildaskrá þar sem taldar voru upp nokkrar ævisögur sem lægju óútgefnar á handritadeild Landsbókasafnsins. Þar á meðal var nefnd frú Lára Ágústsdóttir og ég var heldur tindilfættur út á safn og fékk ljósrit af gripnum. Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að handritið var fært í letur af Sigurði Benediktssyni bóksala og uppboðshaldara fyrir Víkingsútgáfuna sem var í eigu Ragnars Jónssonar í Smára. Bókin kom aldrei út en afrit virðast hafa lent hingað og þangað og þetta tiltekna eintak var úr skjalasafni Jóhannesar Nordal og virðist sem að minnsta kosti fimm eintök af handritinu hafi verið í umferð. Ég hitti meðal annars mann suður í Hafnarfirði sem varðveitir frumhandrit Sigurðar, handskrifað ásamt nokkrum ljósmyndum.
Allt var þetta ævintýri með nokkrum ólíkindum en ég setti semsagt saman ævisögu Láru þar sem hið óútgefna handrit var ein meginundirstaðan en ég notaði þó tækifærið og leitaði uppi fólk sem ég hafði kynnst við vinnslu bókarinnar: Ekki dáin, bara flutt og heimsótti fyrrum heimili Láru á Akureyri og margt fleira.  
Bókin seldist ágætlega og Lára hættir aldrei að heilla fólk því eftir minni bestu vitund er verið að vinna kvikmyndahandrit sem fjallar um litríka ævi kvenmiðils í Reykjavík á fyrrihluta tuttugustu aldar. Kannski fréttist meira af því seinna.
 
 

 
hallbjorn.jpg Ævisaga kúrekans
 
 Ævisaga Hallbjarnar Jóhanns Hjartarsonar, kúrekasöngvara og lífskúnstners var fyrsta bókin sem ég skrifaði. Það gerði ég sumarið 1990 og bókaforlagið María á Ísafirði gaf bókina út það haust. Margt við vinnslu bókarinnar varð afar lærdómsríkt bæði fyrir skrásetjara og ekki síður forleggjara en þetta var frumraun beggja. María hefur ekki gefið út aðrar bækur sem mér er kunnugt um enda seldist þetta sveinsstykki aðeins í fáeinum hundruðum eintaka.
Þetta eftirminnilega sumar sat ég löngum stundum yfir geysilega vönduðu úrklippusafni og upptökusafni Hallbjarnar sem gerði mér verkið léttara en ella en einnig var ég gestur á heimili þeirra hjóna á Skagaströnd í tvö skipti meðan ég grúskaði í bókum Höfðahrepps og skrafaði við skyldmenni og sveitunga snillingsins.
Kynnin við þennan einstaka listamann og athafnaskáld voru mér ljúf eins og eflaust flestum sem kynnast honum. Nokkuð kalt varð þó milli okkar eftir útkomu bókarinnar enda varð hún ekki sá smellur sem eflaust báðir hefðu viljað. Nokkrum árum seinna reyndi ég að hafa milligöngu um að Hallbjörn eignaðist nokkra tugi eintaka til þess að selja í Kántríbæ en satt að segja vissi ég aldrei hvernig því máli lyktaði. Ég rekst stundum á eintök á borðum í Kolaportinu eða á bókamörkuðum og hlýnar einatt um hjartaræturnar því ég veit að kúrekinn norðursins er eilífur.
 
Þess má að lokum geta að eftir útkomu bókarinnar lofaði ég sjálfum mér því að ég myndi aldrei aftur skrifa ævisögu lifandi viðfangsefnis og hef staðið við það þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um annað. Þetta skal samt ekki skoðast sem neitt hnjóð í garð Hallbjarnar enda er hann rakinn sómamaður til orðs og æðis.