Páll Ásgeir Ásgeirsson

 

100_0056.jpg

Páll Ásgeir Ásgeirsson fæddist 10. nóvember 1956. Hann ólst upp í afskekktri sveit á Vestfjörðum í skjóli óspilltrar náttúru og kyrrláts mannlífs. Páll Ásgeir hefur starfað við blaðamennsku og ritstörf frá 1984 og hefur getið sér gott orð fyrir leiðsögubækur um Ísland sem hafa notið umtalsverðra vinsælda. Þeirra þekktastar eru án efa Hálendishandbókin sem kom út 2001 en ekki síður Útivistarbókin, Bíll og bakpoki og Hornstrandabók svo fáeinar séu nefndar. Nýjasta bók Páls Ásgeirs er 101 Ísland sem kom út vorið 2008 og vísar á jafnmarga áfangastaði í alfaraleið á Íslandi.

Myndin hér að ofan er tekin sumarið 2006 í Leirufirði sem er innstur Jökulfjarða í Grunnavíkurhreppi. Í Leirufjörð fellur allmikil jökulá undan Drangajökli, kölluð Fjörðurinn í daglegu tali. Fjörðurinn er vaðinn á hálfföllnu þvert yfir þær leirur sem gefa firðinum nafn sitt. Í þessum tiltekna leiðangri var Fjörðurinn allmikill eftir úrhellisrigningar.