Rósa Sigrún Jónsdóttir

Gallerí Hlemmur, 2004
 
Umsögn Rögnu Sigurðardóttur í Morgunblaðinu, 15.janúar, 2004
 
Rósa Sigrún Jónsdóttir hefur ekki unnið lengi að list sinni en verk hennar á undanförnum árum hafa vakið athygli fyrir fegurð og frumleika. Hún hefur unnið með íslenskt handverk ánýstárlegan og fallegan hátt og er greinilega í miklu sambandi við náttúruna. Verkið sem Rósa sýnir núna í Gallerí Hlemmi er sannkallaður svanasöngur gallerísins, það er fallegt sterkt og eftirminnilegt í einfeldni sinni.  Rósa er afar hæfileikaríkur listamaður og henni tekst að birta okkur hinum sterka og falega sýn á hversdagslega hluti. Eyrnapinnavefnaðurinn er sláandi verk sem situr í manni. Það minnir á smíð náttúrunnar eins og köngulóarvef eða býflugnabú en vísar um leið til neyslusamfélagsins og fegurðar- og hreinlætisdýrkunnar þeirrar sem við búum við. Þráhyggjan sem birtist í gerð þess og stærð vefsins er óhugnanleg en um leið er vefurinn fallegur ásýndum. Myndbandið með útsaumnum í fingurgómana stækkar verkið og gerir það enn áleitnara og gott samræmi er í samsaumuðum bómullarendum eyrnapinnanna og fingurgómum listakonunnar á skjánum. Manni hlýtur að verða hugsað til sérkennilegra líkamsgjörninga Marinu Abramovich frá sjöunda og áttunda áratugnum, í einum var nál stungið í fingur og í öðrum man ég ekki betur en að hún hafi myndast við að sauma saman á sér varirnar. Í einu verki greiðir hún hár sitt af offorsi og nefnir það "Art must be beautiful, Artist must be beautiful" og deilir þar á fegurðarkröfur samfélagsins líkt og Rósa. En listakonan Rósa býr yfir ríkri kímni og léttleika meðfram þráhyggjunni, le´ttleika sem verk Abramovic skortir, enda eru nú aðrir tímar.
Það er sjaldgæft að sjá listamann sem vinnur á svona einfaldan, persónulegan og sterkan hátt úr hversdagslegum hlutum og full ástæða til að bíða spenntur eftir næstu verkum listakonunnar. Ekki veit ég hver framtíðaráform hennar eru en víst er að starf hennar er ekki auðvelt í því listumhverfi sem við búum við hér.
 
 
Gallerí Skuggi, Hverfisgötu
Umsögn Jóns B.K. Ransu í Morgunblaðinu 28. nóvember 2002
 
 "MINNI" nefnist sýning Rósu Sigrúnar Jónsdóttur sem nú stendur yfir á efri hæðinni í Galleríi Skugga. Titilinn má túlka sem "minningu", "yrkisefni" og/eða "mótíf". Rósa útskrifaðist frá skúlptúrdeild Listaháskóla Íslands árið 2001 og hefur verið nokkuð iðin við sýningarhald síðan. Hún átti fyrirtaks verk á samsýningu í ASÍ í fyrra þar sem hún strengdi blúndur yfir stigann inn í sýningarsalinn svo þær litu út eins og kóngulóarvefir. Hún endurtók svo leikinn skömmu síðar sundir stiganum í Galleríi i8, en bætti við "blacklight"-perum svo hvítar blúndurnar lýstu upp. 
Fyrir innsetninguna í Gallerí Skugga hefur Rósa safnað smáum hlutum á ferðum sínum um hálendið sem hún sýnir í löngu mjóu neti sem hangir niður úr lofti sýningarrýmisins líkt og vefir með fangaða bráð. Rósa notar "blacklight"  perur svo hvítir þræðir pokanna lýsa í rýminu. Auk pokanna sýnir hún ljúfa og ljóðræna texta á hvítum blöðum sem í "blacklight" -lýsingunni virðast svífa frá veggnum.  Textarnir greina frá stöðum á hálendi Íslands og tengjast jafnframt hlutunum. Eiginleikar sjálfra hlutanna virðast þó ekki skipta Rósu miklu máli og gerir hún jafnvel í því að fela þá. Efni og rýmiskennd virðist liggja listakonunni mest á hjarta enda hefur hún augljóslega næmt auga fyrir þeim artiðum. Sýningin er á heildina vel unnin og er jafnframt fallegur óður til hálendisins.
 
 
 Úr umsögn Aðalsteins Ingólfssonar í DV 29. nóvember, 2002 
 
Gallerí Skuggi lætur lítið yfir sér, og fer því sennilega fram hjá ýmsum þeim sem láta sig varða myndlistariðkunina í borginni.  Þar eru nú tvær innsetningar sem eru eins og sýnishorn þeirra valkosta sem virðast blasa við nýútskrifuðum myndlistarmönnum.....
.....Á jarðhæð er innsetning Rósu Sigrúnar Jónsdóttur, sem getið hefur sér gott orð fyrir hugmyndaríkan prjónaskap. Færri vita að listakonan er mikil fjallageit og í þessu verki hefur hún sameinað þessi áhugamál sín. Á ferðum sínum um landið tínir hún ýmislegt upp af götu sinni, steinvölur, bein, trjábúta eða nagla, og setur þannig mark sitt á hvern stað, jafnvel þótt eftirkomendur merki tæplega breytingarnar.
Rósa hefur nú prjónað misjafnlega stóra  "poka"  utan um nokkra þessa minjagripi og hanga þeir í eins konar klasa ofan úr loftinu. Hverjum "poka" fylgir stuttur og elskulegur texti á endavegg, þar sem listakonan skýrir frá aðstæðum, "sögunni" á bak við brottnám hvers hlutar. Þannig sver Rósa sig obbolítið í ætt ið erlenda náttúrusafnara á borð við Richard Long og Hamish Fulton..... 
....Hvað Rósu  snertir  vex framkvæmdin með eðlilegum - mér liggur við að segja lífrænum - hætti upp úr viðhorfum hennar og áhugamálum, ekki fyrirframgefnu "konsepti", og er borin uppi af djúpstæðri virðingu fyrir aðdráttarafli og friðhelgi landsins. 
Hér er því skírskotað til veruleika handan vitundar listakonunnar, veruleika sem einmitt brennur á þorra landsmanna um þessar mundir. Innsetningin vekur spurningar um það hvað teljist "viðunandi" röskun þegar náttúran er annars vegar.
 
 
 
 
Götumyndir, 2008
Start Art Laugavegi 
 
Umsögn Önnu Jóa í Morgunblaðinu 14. mars 2008
 
Í Listamannahúsinu Start Art, Laugavegi 12 B, sýnir nú Rósa Sigrún Jónsdóttir í forsalnum. Sýningin er í miðbænum og það er miðbærinn sem listamaðurinn hefur gert að viðfangsefni sínu. Hún beinlínis "þræðir" götur hans í myndbandsverki sem sem varpað er á vegg, en þar birtast þær einnig sem sumspor. Ummerkin má og sjá í götumynd þar hjá, í afstraktformi. Það má ímynda sér að einhvern veginn þannig hafi myndir af miðbænum greypst í og mótað vitund borgarbúa. Við skoðun götumynda Rósu Sigrúnar má rekja slóðir - persónulegar en líka samfélagslegar. Slík mynd á það á hættu að  "rakna upp" í tímans rás eða í niðurrrifsstarfsemi, og um leið rofna og glatast lífsins þræðir. Sama má segja um götumyndina sem spunnin er líkt og kóngulóarvefur í gluggahorn sýningarrýmisins. Sýningin minnir að þessu leyti á að rými borgarinnar eru skynjuð og lifuð - og að það beri að hafa í huga í borgarskipulagi.
Listamaðurinn skapar fleiri huglægar götumyndir: í verkinu Götumyndir I kannar hún borgarrýmið og kortlegur í vef mislitra þráða sem liggja milli nokkurs konar "hnita" eða hnykla. Þessi verk kallast á við eldri verk Rósu Sigrúnar, em ég hef séð, og í þeim nýtur sín vel styrkur hennar í rýmiskennd og meðferð textílkenndra efna. Þessir eiginleikar sjást síður í tveimur stórum afstraktmálverkum af Vonarstræti, sem þó eru vel útfærð. Það er hins vegar rýmisleg "framlenging" þeirra í formi upprúllaðra, litaðra límbandsstrimla- eins konar jaðarmynda götunnar - sem ber hugmyndaríki listamannsins vitni. 
 
Gluggasögur
Heima er best,  Vatnssíg 9, júní 2002
Umsögn Halldórs Björns Runólfssonar
 
Þegar Margrét O. Leópoldsdóttir ákvað að búa til heimagallerí í gluggunum á húsi sínu á horni Vatnsstígs og Veghúsastígs var það meðal annars til að mæta þeim barlómi sem hún taldi sig verða of oft vara við hjá myndlistarmönnum og beindist gegn skilningsleysi almennings.Til þess að sanna að fólk væri ekki eins frábitið óvenjulegri listsköpun og bölmóðurinn vildi vera láta bauð hún kollegum sínum að nýta gluggarými heimilis síns undir heitinu Heima er best. Gluggarnir vísa út að báðum stígum gangandi vegfarendum til boða.
Rósa Sigrún Jónsdóttir hefur á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að hún útskrifaðist fengist við staðbundna listsköpun eða þá tegund tækifærislistar sem sköpuð er fyrir ákveðnar aðstæður. Gluggaverk Rósu í Heima er best heita Sögur og byggjast á frásögnum af hvers kyns toga, mest þó fyndnum og fáránlegum, sem snerta húsið við Vatnsstíg níu og íbúa þess forðum daga.
Sumt er í hreinum kjaftasögustíl en annars staðar teygir sögusviðið sig út og suður, upp í sveit, með tilheyrandi lýsingum á húsbúnaði, húsdýrum og öðrum ferfætlingum. Allur sá einkafróðleikur sem gjarnan er geymdur bak við gluggatjöldin og vaðrveittur sem helgasta leyndarmál er allt í einu kominn á rúðurnar, vendilega skrifaður í prentstöfum með þykkum merkipenna svo alir geti séð og lesið. Þannig snýr Rósa innhverfunni út og lokkar okkur gangandi vegfarendur til að staldra við og lesa það sem stendur á rúðunum. Um leið og lesandinn stendur framan við húsið og les veit hann ekki nema einhver standi á gægjum bakvið gluggatjöldin og fylgist með honum. Njósnir hafa alltaf tilhneigingu til að laða fram gagnnjósnir. Áður fyrr lágu allir á línunni og fylgdust með einkasamtölum fólks í símkerfi sem bauð upp á hlerun. En sá sem hleraði gat ekki komið í veg fyrir að einhver fylgdist með hans eigin samtali. Þannig endurspeglar þetta einfalda verk aldagamlan tvískinnung, þar sem allir kepptust við að fylgjast með náunganum um leið og þeir reyndu að halda sem mestu leyndu fyrir honum.
 
 
 
 
Heklský
Listhúsið i8
 
Umsögn Braga Ásgeirssonar í Morgunblaðinu í ágúst, 2001 

Í innskoti neðan við stigatröppur í kjallara sér í mjög áhugaverða innsetningu eftir Rósu Sigrúnu Jónsdóttur, sem rétt er að víkja aðeins að.
áður var þar frá opnun listhússins innsetning eftir Rögnu Róbertsdóttur, en nú hefur sú stefna verið tekin að gefa ungu upprennandi listafólki tækifæri til að minna á sig í listhúsinu. Allt gott um framtakið að segja og sver sig í ætt við svonefnd "Project" eða verkefni í listhúsum og söfnum ytra sbr. verk Ólafs Elíassonar á MOMA.
Engar upplýsingar fær skoðandinn í hendurnar um þetta verk, nema að sér ínafn höfundar neðarlega á vegg til vinstri og svo liggur mappa með upplýsingum um gerandann á borði í sal. Hins vegar er útgeislan verksins afar sterk og allt annnar handleggur en innsetning Rósu Sigrúnar "Heklundur" yfir stigagangi listasafns ASÍ fyrir skömmu. Heklaðir smádúkarnir svífa líkt og skýjaslæður í ljósaskiptum, leiða hugann um sumt að litríkum klósigum og öðrum sjónrænum gjörningum himnaföðurins.
Almyrkva
Til þess að koma í veg fyrir Misskilning ákvað mamma að best væri að þegja. 
Útvarpsleikhúsið og Listahátíð í Reykjavík, 2002
 
Höfundar: Árni Ibsen og Rósa Sigrún Jónsdóttir.
Leikstjórn: Harpa Arnardóttir.
 
Umsögn Sveins Haraldssonar í Morgunblaðinu 24. maí 2002
 

 
Rósu Sigrúnu er tvennt efst í huga nú í upphafi ferils síns sem myndlistarmanns. Í viðtali sem tekið var við hana fyrir rétt rúmlega ári er hún útskrifaðist úr skúlptúrdeild Listaháskóla Íslands leggur hún áherslu á sjónarhorn - eða með hennar orðum "persónulega sýn á veruleikann"- en tenging við rýmið skiptir hana miklu enda hafa þau verk sem hún hefur sýnt kallast á við það.
Það sem vakir fyrir Rósu Sigrúnu er, að hennar sögn, að "dýpka ... upplifun af hinu ósýnilega leikhúsi ímyndunaraflsins fyrir þeim sem er á staðnum". Það er snilldarleg hugmynd að flytja þetta örleikritætlað fyrir útvarp fyrir hóp áhorfenda mitt í myrkvuðum tanki. Að vissu leyti "dýpkar" þetta reynslu áhorfandans af verkinu en það sem Árna og Rósu hefur e.t.v. ekki komið til hugar, fjarlægir þetta áhorfendur líka frá línulegri frásögn örleikritsins.
 
Gerðar hafa verið tilraunir á mönnum  sem var komið fyrir í myrkvuðum tönkum, einangraðir frá hvers konar áreiti. Eftir ákveðinn tíma misstu mörg viðfanganna tengsl við raunveruleikann og sáu ofsjónir. Undirritaður varð ekki fyrir neinni dulrænni reynslu í Öskjuhlíðinni en upplifunin var samt einstök. 
Hljómburðurinn kom í veg fyrir að hægt væri að greina orðaskil ef leikararnir voru of fjarri en sá hluti textans sem komst til skila er greyptur í vitundina, enda ekkert sem glapti. Eftirminnilegust er rödd Steinunnar Ólafsdóttur - sem heyrðist greinilega í myrkrinu þó að orðin yrðu ekki greind - eins og sellóhljómar í algjörri kyrrðinni.....
Leikurinn er mjög vel unninn, leikurunum hefur greinilega þótt mikið í textann varið. Það er eins og myrkrið skili sér í túlkun þeirra: óvissan um hverju fram vindur, óttinn við það sem sést ekki - allt minnir það á langt harmþrungið og margrætt ljóð.

 
Listasafn ASÍ, 2001.
Fyrsta
Samsýning 8 nýútskrifaðra listamanna.
Úr umsögn Þórodds Bjarnasonar:
 
Í stigaganginum á leiðinni upp í aðalsalinn á efri hæð safnsins er fyrsta verk sýningarinnar, Heklundur eftir Rósu Sigrúnu Jónsdóttur. Verkið er gert úr mörgum, hvítum, hringlaga dúkum sem festir eru saman með bandi þannig að úr verður vefur, nokkurs konar kóngulóarvefur, og þegar ljósið fellur á verkið myndast skemmtilegt skuggaspil í stigaganginum. Það er ekki auðvelt að vinna með rýmið í Ásmundarsafni þar sem átök myndast gjarnan milli arkitektúrs og myndlistar, en Rósu tekst vel upp í þessu tilfelli því verkið nýtur sín prýðilega þar sem það er.
 
 
Listasafn ASÍ, ágúst 2001. Samsýning 8 nýútskrifaðra listamanna.
Fyrsta sýningin 
Úr umfjöllun Aðalsteins Ingólfssonar í DV 
 
Hvernig skyldu veröldin og listin horfa við ungum listamönnum, nýsloppnum úr Listaháskóla Íslands.  Hvaða efni og aðferðir nota þeir til þess að koma á framfæri hugmyndum sínum og tilfinningum. Sjömenningarnir sem nú sýna í Listasafni ASÍ gefa sig að sönnu ekki út fyrir að túlka viðhorf sinnar kynslóðar en í verkum þeirra felast samt nokkrar vísbendingar um það listræna ástand sem þeir eru hluti af. 
Fyrst er það tölfræðin: af þessum sjö listamönnum eru einungis tveri karlmenn, þeir Guðlaugur Valgarðsson og Fjölnir Björn Hlynsson. Konur eru nú þegar í meirihluta í aðskiljanlegum samtökum  íslenskra sjónlistamanna og aðsóknartölur listaskólanna benda til þess að forskot þeirra sé enn að aukast. Nú er kannski varasamt að alhæfa um tækni út frá vinnulagi þessa hóps því út úr skólanum útskrifuðust einnig listamenn annarrar náttúru sem ekki hafa séð sérstaka ástæðu til að efna til sýninga. Í öllu falli er það satðreynd að enginn sjömenninganna sem hér um ræðir sækir neitt til málaralistarinnar. Engu að síður er gott handverk ofarlega í huga þeirra, hvort sem það birtist í ljósmyndun, myndbandasamsetningi eða einhverju öðru. 
Upphafning handverksins.
Og það sem er kannski fréttnæmast við þessa upphafningu handverksins er hversu mjög það tekur mið af þjóðlegri  eða alþýðlegri handavinnu sem listnemum var áður uppálagt að forðast eins og heitan eldinn. Gamlar útskurðarhefðir ganga aftur í Myrkrarós Fjölnis Björns Hlynssonar, trjáviði sem breytt hefur verið í eins konar tótem eða súrrealískt töfratré - en að Fjölni standa þekktir listasmiðir fyrir austan.
 
Rósa Sigrún Jónsdóttir notar heklaða smádúka, eins og þá sem ömmur okkar gerðu forðum daga, en ekki til að punta pent upp á nánasta umhverfi sitt. Þess í stað setur hún sig í spor kóngulóarinnar og spinnur eins konar umhverfisverk, umlykur áhorfandann með vef úr smádúkum og bómullarþráðum. Áhorfendur geta svo gamnað sér við að botna orðaleikina sem listakonan lætur fylgja þessu tilbrigði sínu um "heklun", vitandi um yfirlýstan áhuga hennar á náttúrunni.