Rósa Sigrún Jónsdóttir
 
Listasafn ASÍ, 2001.
Fyrsta
Samsýning 8 nýútskrifaðra listamanna.
Úr umsögn Þórodds Bjarnasonar:
 
Í stigaganginum á leiðinni upp í aðalsalinn á efri hæð safnsins er fyrsta verk sýningarinnar, Heklundur eftir Rósu Sigrúnu Jónsdóttur. Verkið er gert úr mörgum, hvítum, hringlaga dúkum sem festir eru saman með bandi þannig að úr verður vefur, nokkurs konar kóngulóarvefur, og þegar ljósið fellur á verkið myndast skemmtilegt skuggaspil í stigaganginum. Það er ekki auðvelt að vinna með rýmið í Ásmundarsafni þar sem átök myndast gjarnan milli arkitektúrs og myndlistar, en Rósu tekst vel upp í þessu tilfelli því verkið nýtur sín prýðilega þar sem það er.
 
 
Listasafn ASÍ, ágúst 2001. Samsýning 8 nýútskrifaðra listamanna.
Fyrsta sýningin 
Úr umfjöllun Aðalsteins Ingólfssonar í DV 
 
Hvernig skyldu veröldin og listin horfa við ungum listamönnum, nýsloppnum úr Listaháskóla Íslands.  Hvaða efni og aðferðir nota þeir til þess að koma á framfæri hugmyndum sínum og tilfinningum. Sjömenningarnir sem nú sýna í Listasafni ASÍ gefa sig að sönnu ekki út fyrir að túlka viðhorf sinnar kynslóðar en í verkum þeirra felast samt nokkrar vísbendingar um það listræna ástand sem þeir eru hluti af. 
Fyrst er það tölfræðin: af þessum sjö listamönnum eru einungis tveri karlmenn, þeir Guðlaugur Valgarðsson og Fjölnir Björn Hlynsson. Konur eru nú þegar í meirihluta í aðskiljanlegum samtökum  íslenskra sjónlistamanna og aðsóknartölur listaskólanna benda til þess að forskot þeirra sé enn að aukast. Nú er kannski varasamt að alhæfa um tækni út frá vinnulagi þessa hóps því út úr skólanum útskrifuðust einnig listamenn annarrar náttúru sem ekki hafa séð sérstaka ástæðu til að efna til sýninga. Í öllu falli er það satðreynd að enginn sjömenninganna sem hér um ræðir sækir neitt til málaralistarinnar. Engu að síður er gott handverk ofarlega í huga þeirra, hvort sem það birtist í ljósmyndun, myndbandasamsetningi eða einhverju öðru. 
Upphafning handverksins.
Og það sem er kannski fréttnæmast við þessa upphafningu handverksins er hversu mjög það tekur mið af þjóðlegri  eða alþýðlegri handavinnu sem listnemum var áður uppálagt að forðast eins og heitan eldinn. Gamlar útskurðarhefðir ganga aftur í Myrkrarós Fjölnis Björns Hlynssonar, trjáviði sem breytt hefur verið í eins konar tótem eða súrrealískt töfratré - en að Fjölni standa þekktir listasmiðir fyrir austan.
 
Rósa Sigrún Jónsdóttir notar heklaða smádúka, eins og þá sem ömmur okkar gerðu forðum daga, en ekki til að punta pent upp á nánasta umhverfi sitt. Þess í stað setur hún sig í spor kóngulóarinnar og spinnur eins konar umhverfisverk, umlykur áhorfandann með vef úr smádúkum og bómullarþráðum. Áhorfendur geta svo gamnað sér við að botna orðaleikina sem listakonan lætur fylgja þessu tilbrigði sínu um "heklun", vitandi um yfirlýstan áhuga hennar á náttúrunni.
 
 
 Úr umsögn Þórodds Bjarnasonar
Sýningin er fagmannlega sett upp, hvert verk fær sitt rými og truflar ekki hin, en oft er dálítil kúnst að setja samsýningar sem ekki hafa ákveðið þema þannig upp að verk eins listamanns fái frið fyrir hinum. Það sem ég sakna hins vegar úr sýningunni er meiri hressileiki, kraftur og jafnvel reiði, sem á að einkenna nýútskrifaða listamenn. Fólk má ekki gleyma því að nú á tímum hákapítalískra viðhorfa, auglýsingamennsku og markaðshyggju er þörf á myndlistarverkum sem minna okkur á msrgbreytileika þjóðfélagsins, jafnt dimmustu skúmaskot þess sem hinn háglansandi raunveruleika.