Rósa Sigrún Jónsdóttir
Almyrkva
Til þess að koma í veg fyrir Misskilning ákvað mamma að best væri að þegja. 
Útvarpsleikhúsið og Listahátíð í Reykjavík, 2002
 
Höfundar: Árni Ibsen og Rósa Sigrún Jónsdóttir.
Leikstjórn: Harpa Arnardóttir.
 
Umsögn Sveins Haraldssonar í Morgunblaðinu 24. maí 2002
 

 
Rósu Sigrúnu er tvennt efst í huga nú í upphafi ferils síns sem myndlistarmanns. Í viðtali sem tekið var við hana fyrir rétt rúmlega ári er hún útskrifaðist úr skúlptúrdeild Listaháskóla Íslands leggur hún áherslu á sjónarhorn - eða með hennar orðum "persónulega sýn á veruleikann"- en tenging við rýmið skiptir hana miklu enda hafa þau verk sem hún hefur sýnt kallast á við það.
Það sem vakir fyrir Rósu Sigrúnu er, að hennar sögn, að "dýpka ... upplifun af hinu ósýnilega leikhúsi ímyndunaraflsins fyrir þeim sem er á staðnum". Það er snilldarleg hugmynd að flytja þetta örleikritætlað fyrir útvarp fyrir hóp áhorfenda mitt í myrkvuðum tanki. Að vissu leyti "dýpkar" þetta reynslu áhorfandans af verkinu en það sem Árna og Rósu hefur e.t.v. ekki komið til hugar, fjarlægir þetta áhorfendur líka frá línulegri frásögn örleikritsins.
 
Gerðar hafa verið tilraunir á mönnum  sem var komið fyrir í myrkvuðum tönkum, einangraðir frá hvers konar áreiti. Eftir ákveðinn tíma misstu mörg viðfanganna tengsl við raunveruleikann og sáu ofsjónir. Undirritaður varð ekki fyrir neinni dulrænni reynslu í Öskjuhlíðinni en upplifunin var samt einstök. 
Hljómburðurinn kom í veg fyrir að hægt væri að greina orðaskil ef leikararnir voru of fjarri en sá hluti textans sem komst til skila er greyptur í vitundina, enda ekkert sem glapti. Eftirminnilegust er rödd Steinunnar Ólafsdóttur - sem heyrðist greinilega í myrkrinu þó að orðin yrðu ekki greind - eins og sellóhljómar í algjörri kyrrðinni.....
Leikurinn er mjög vel unninn, leikurunum hefur greinilega þótt mikið í textann varið. Það er eins og myrkrið skili sér í túlkun þeirra: óvissan um hverju fram vindur, óttinn við það sem sést ekki - allt minnir það á langt harmþrungið og margrætt ljóð.
Árna Ibsen er óþarfi að kynna fyrir íslenskum leikhúsáhorfendum, hann er eitt virtasta leikskáld á íslenskri tungu, sem er lífs.
Í þessu örverki er hann á alvarlegri nótum,textinn er hugleiðing um hvernig hinir núlifandi lifa með hinu liðna og þá einnig hvernig hinir liðnu lifa inrra með þeim er lifa. Þegar svo er málum farið endurtekur sagan sig; eftirlifendurnir eru dæmdir til þess að endurtaka þá lífshætti sem þeir voru innnvígðir í sem börn. Þetta verk er meitlað og fullmótað, leikurinn er eins og hringur, upphafs- og endalaus, þar sem kynslóðunum mistekst að leysa úr sömu vandamálunum öld fram af öld.
 
Að sjálfsögðu hafði undirritaður vaðið fyrir neðan sig og hefur hlustað á örleikritið af segulbandi......
En að hlusta á verkið og að vera á staðnum er tvennt ólíkt - eins ólík og leikræn upplifun af " sama" verkinu getur framast orðið.
 
Sveinn Haraldsson